Fjallganga
Blikar á lóni, bjart er nú til fjalla,
bræðir nú sólin kaldan jökulskalla.
Þýtur í lofti þíður sunnanvindur,
þverhníptur gnæfir brattur fjallatindur.

Framundan hlykkjast götuslóði gróinn,
grámosinn lágvaxinn breiðir sig um móinn.
Niður með kletti lækjarspræna líður,
leiðin er ströng sem göngumannsins bíður.

Göngumannsins freista fjöllin há
er frelsisins í náttúrunni leitar.
Hann vill ætíð hæsta tindi ná
hugdjarfur klífur þverhnípt björgin blá,
blik í augum, afl er í taugum.

Viðlag:
Sæl eru þau hjörtu er sigri ná
og svala í náttúrunni innri þrá.

Blikar á lóni, bjart er nú til fjalla,
bræðir nú sólin kaldan jökulskalla.
Þýtur í lofti þíður sunnanvindur,
þverhníptur gnæfir brattur fjallatindur.  
Hákon Aðalsteinsson
1935 - ...
Úr bókinni <a href="http://www.horpuutgafan.is/ljod/index.html" target="new">Imbra</a>.
Hörpuútgáfan, 2002.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Hákon Aðalsteinsson

Fjallganga
Laugar í Reykjadal
Ákall