Konungur úlfa
Í grænum draumi
djúpt í iðrum trénaðra náttborða
leynist röddin þín
á gatslitnum kassettum

hrjúf og hol
hlæjandi eins og galgopi
horfins heims
hlýju

gullmolar gærdagsins
gæddir fúnaðri lykt
af svörtum síma
sem hringir aldrei

dansaðu við mig
gegnum gömlu orðin
þú litríki andi

ó, Hudson Bay

leyfðu mér að líða

gefðu mér bleika snúða
og smjörsteikt hrogn

helltu mjólk í glasið mitt
borðaðu grænmetið sjálfur

settu smjör á trýnið
á kettinum

aðeins hærra!

förum í Últíma
sækjum nýja lögreglubúninginn

kveikjum mjúka ljósið í klæðaskápnum

segðu mér að sækja ritvélina
láttu mig fá leiðréttingaborðann
kenndu mér að skrifa ljóð

ævaforni kommúnistinn þinn

takk, afi  
Klara Nótt Egilson
1971 - ...


Ljóð eftir Klöru Nótt Egilson

Atlas í dag
Konungur úlfa
Móðir mín í hvívetna