fegurst ertu á morgnana
Heimurinn liðast í sundur á næturnar
breytist í ótal örsmáar flísar
sumar sjóblautar, aðrar vaxnar grasi
eða malbikaðar, málaðar og sögufrægar
Þær æða um geiminn einsog mökkur
reiðra geitunga í svartamyrkri
eða maurildi réttum megin sólar
Því hefur verið spáð að einn morguninn
muni flísarnar ekki raðast saman
í fyrri mynd einsog þó hefur gerst
undantekningarlaust allar götur síðan
jörðin tók þessa þungu sótt
Og þá verði kannski afrísk sandalda
við hlið íslensks smalakofa og brim
skelli á efstu hæðum upplýstra skýjakljúfa
Þennan morgun, skömmu fyrir dögun, vil ég
halda fast í hönd þína nývaknaða.
 
Sindri Freysson
1970 - ...
Úr bókinni Harði kjarninn.
Forlagið, 1999.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Sindra Freysson

fegurst ertu á morgnana
flug frá New York