Fjaðrir og fiður
Í sama mund og Kolla reytir sig
á Vigri
sigur Grágæsamóðir í makindum
við Tjörnina
og virðir aðvífandi skáldkonu
ekki viðlits.
Hún reytir sig alla
svo næðingurinn smígur
inn í holótt beinin
en Grágæsamóðirin setur verndarvæng
yfir ungana
og þykist ekki sjá flugþrána
í göngulagi skáldkonunnar.

Á sama tíma stígur Skarfur upp á stein
við Stykkishólm,
breiðir út vængina
og messar yfir ógreinum sálum
svartfugla
Hann minnist Súlunnar
sem mistókst lending á Eldey
og Geirfuglabeinsins
undir fit Lundans
á skeri skammt frá.
Hann varar við ofbeldishneigðum Störrum
sem slást í þakskeggi
við Óðinsgötu
á meðan einmana Himbrimi
syndir um Kleifarvatn
í leit að slagsmálum.
Lofsamar varnarlist Fýlsins
sem spúði á ferðamenn
við Krísuvíkurberg
og dyggðir Ritunnar
sem veitti syndugri Álku sáluhjálp
á næstu syllu.

Að lokum minnir hann á
að Haftyrðillinn er farinn
fyrir fullt og allt,
flúinn undan skítugum hugsunum
fugla á útskerjum.

Og þegar Skarfurinn setur vængina niður
hvísla öldurnar amen
og ungi sleppur undan væng Grágæsarinnar.
Á Vigri brýtur goggur gat á heiminn og
skáldkonan gengur um
með hugann við sprungur
í himninum

og stígur
á einn lítinn.  
Bjarney Gísladóttir
1975 - ...


Ljóð eftir Bjarney

Skúmaskot
Smiðurinn
Fjaðrir og fiður
Rjómabúið að Baugstöðum