Hugleiðingar um nýja heimsstyrjöld
Nú baðar jörð í blóði,
og barist er af móði,
og þessu litla ljóði
mun lítil áheyrn veitt.
Og þótt ég eitthvað yrki
um Englendinga og Tyrki,
má telja víst það virki
sem verra en ekki neitt.

Ég ligg hér einn og lúinn,
úr lífsins harki flúinn,
og vilja og vopnum rúinn
á vinsamlegum stað.
Manns hug ei hátt skal flíka,
ég hefi barist líka
og átt við ofraun slíka.
En ekki meira um það.

Vort líf er mikil mæða
og margt vill sárið blæða,
og knappt til fæðu og klæða
er kannske nú sem þá.
En samt skal sorgum rýma,
þótt sækist hægt vor glíma,
því eflaust einhverntíma
mun einhver sigri ná.

Og berjist þeir og berjist
og brotni sundur og merjist,
og hasli völl og verjist
í vopnabraki og gný.
Þótt borgir standi í báli
og beitt sé eitri og stáli,
þá skiptir mestu máli
að maður græði á því.  
Steinn Steinarr
1908 - 1958
Úr bókinni Spor í sandi.
1940.
Allur réttur áskilinn erfingjum Ásthildar Björnsdóttur.
-------
Tekið úr bókinni Steinn Steinarr: Ljóðasafn, Vaka-Helgafell, 1991.


Ljóð eftir Stein Steinarr

Leiksýning
Tíminn og vatnið (hluti)
Hugleiðingar um nýja heimsstyrjöld