Leiksýning
Hin mikla leiksýning
var loks á enda.
Eins og logandi blys
hafði leikur minn risið
í hamslausri gleði
og friðlausri kvöl,
uns hann féll á ný
í skoplegri auðmýkt
til upphafs síns.
Það var lífið sjálft,
það var leikur minn.
Og ég leit fram í salinn
og bjóst við stjórnlausum fögnuði
fólksins.
En þar var enginn.
Og annarleg kyrrð hvíldi yfir
auðum bekkjunum.  
Steinn Steinarr
1908 - 1958
Úr bókinni Ljóð.
1937.
Allur réttur áskilinn Ásthildi Björnsdóttur.
-------
Tekið úr bókinni
Steinn Steinarr: Ljóðasafn,
Vaka-Helgafell, 1991.


Ljóð eftir Stein Steinarr

Leiksýning
Tíminn og vatnið (hluti)
Hugleiðingar um nýja heimsstyrjöld