Huldufólkssögur II
Við fylgjumst með leikjum sólargeislanna í perlunum á enni mannsins og dansi vöðvanna undir æðaberu hörundi hans þar sem hann bindur baggana upp á klárinn okkar gamla. Börnin ganga lotin heim til bæjar og draga á eftir sér hrífusköftin. Við fylgjum þeim eftir, hlaupum á þúfum og togum öðru hverju í sköftin en börnin eru hætt að líta um öxl. Yngsta stúlkan skilur sína hrífu eftir upp við galta og fær að sitja klárinn heim. Á meðan bóndinn og börnin horfa á ljósan reykinn úr eldhússtrompinum bera við svartan kambinn handan lækjar stöldrum við ögn við og virðum brosandi fyrir okkur þennan nýfengna dýrgrip.  
Valgarður Lyngdal Jónsson
1972 - ...
Birtist í bókinni NEMA-ljóð og sögur.
Gefin út af nemum í Kennaraháskóla Íslands, 1996.


Ljóð eftir Valgarð Lyngdal Jónsson

Vegaljóð
Huldufólkssögur I
Huldufólkssögur II
Huldufólkssögur III