Úr gamalli kennslubók
fátt er auðveldara
en að raða

orðum á blað
rjúfa

flæði textans stöku
sinnum með línubilum

sem auka svigrúmið
fyrir

tilgerðina og persónulegar
tilfinningar skáldsins
sem það deilir

með öðrum
af knýjandi innri þörf
best er að spara við sig orðin

<i>(ekki segja kúkur)</i>

og uppröðun þeirra æskilegt er
að rugla minnst einu sinni
<i>(sjá tilgerð)</i>

gott er

að beita knöppum myndum
sem hafa víða skírskotun yrkisefnin
skulu vera hafin yfir tíma
að lokum

skulu orðin hnýtt saman í spurn
því ljóð geyma engin svör
og allt
skal svo pakkast utan með titli
en

ef enginn vill lesa
ef engum finnst gaman
er það bara betra
og staðfestir dýpt ljóðsins

sem stendur
í beinu línulegu samhengi
við dýptina á nafla skáldsins
 
Steinar Bragi
1973 - ...
Úr bókinni Svarthol.
Nykur, 1998.
Allur réttur áskilinn höfundi.

Steinar Bragi vakti strax mikla
athygli fyrir kraftmikla fyrstu
ljóðabók sína, Svarthol. Hann
hefur síðan gefið út ljóðabókina
Augnkúluvökvi og skáldsöguna
Turninn. Þriðja ljóðabók Steinars
Braga, Ljúgðu Gosi, ljúgðu, kom út
jólin 2001.


Ljóð eftir Steinar Braga

skiljist
Úr gamalli kennslubók