Haustið
Hefur nú in hvíta mjöll
- hörðum fönnum sínum -
Hlíðar- grænu falið -fjöll
fyrir sjónum mínum.

Hún mun eftir stutta stund
stakkinn hvíta breiða
yfir mína góðu grund
og græna litnum eyða.

Ef þar mæna ílustrá
upp úr snjónum hvíta,
norðanveðrin - eftir á
- öll þau burtu slíta.

Svo mun stytta sólargang,
síðan lengjast gríma.
Ég get ekki færst í fang
að fagna slíkum tíma.

Vísna minna vængjum á
vil ég burtu leita
þessu kalda fróni frá
og fljúga í suðrið heita.

 
Páll Ólafsson
1827 - 1905
,,Haustið" er nokkuð dæmigert ljóð eftir Pál en þar sækir hann efniviðinn í náttúruna og nánasta umhverfi sem hann var svo næmur á, og átti svo auðvelt með að færa í bundið mál eða eins og Jónas Jónsson orðar það: ,,Hann talaði mælt mál í ljóðum. Rímsnilld hans og orðaforði var nálega takmarkalaus. Hann kastaði fram vísum, orti kvæði og ljóðabréf frá æskudögum og fram á grafarbakkann. Hinir hversdagslegu atburðir daglegs lífs urðu honum auðfengin yrkisefni."


Ljóð eftir Pál Ólafsson

Lausavísur
Ég vildi feginn verða að ljósum degi
Þögul Nóttin
Án titils
Ragnhildur
Lóan er komin
Haustið
Fangelsi
Lífs er orðinn lekur knör
Sumarkveðja
Tíminn