Tíminn
Þá eg vil feginn þú fljúgir sem valur,
sem fjöllin og jöklarnir stendurðu þá,
hvíldarlaust næðir þinn helkuldinn svalur,
svo hjartað í brjóstinu finnst eigi slá,
þú leyfir mér að eins að líta til baka
á lífið, er eg hef mátt eyða í sekt,
að knýja þig fram eða í taumana taka,
og tefja þig, það er jafn-ómögulegt.

En þegar svo dregur frá sólunni um síðir
og sólgeislinn boðar mér himneskan frið,
og þá eg vil helzt, að þú bíðir og bíðir
og bið þig með tárum að standa nú við,
Þá held eg Andskotinn færi þér fjaðrir,
svo fljúgir þú skjótt með þá unaðarstund.
Já, þú er mér bölvaður allt eins og aðrir,
ónotagepill og kaldur í lund.
 
Páll Ólafsson
1827 - 1905


Ljóð eftir Pál Ólafsson

Lausavísur
Ég vildi feginn verða að ljósum degi
Þögul Nóttin
Án titils
Ragnhildur
Lóan er komin
Haustið
Fangelsi
Lífs er orðinn lekur knör
Sumarkveðja
Tíminn