Áin



Ég er áin,
runnin undan rótum
rismikils jökulhjálms,
skolgráar leirskriður
skríða niður hlíðar.
Örsmáir litlir lækir
lindár og frerasull
safnast saman í farveg
sem liðast niður í móti.

Undan hraunhrjóstri
hríslast kristalstært vatn
sem kliðandi samsamast
sora mínum kolskolugum.
Hlykkjótt leið mín liggur
um leirur og sanda,
grýtta gráa mela,
gljúfur og skorninga.

Veturinn sendir frost og frera,
til að fjötra streymi mitt.
Klakaþiljuð klettagljúfur,
kvelja mig og ísnálastinga.
Lygnur mínar kliða kyrlátar
í köldu skini mánans
ljómandi stjörnur strá
stálfuglasindri yfir mig.

Á vorin byltist ég barmafull,
brýt niður allar hömlur
ryð niður fúafauskum,
fleygi þeim upp á meleyrar.
Bakkar mínir á bólakafi
í bullandi leirgrautarsulli
sem gumsar gráma sínum
yfir gróðurnálaangana

Að sumri logar litadýrð
lyngs og blómaskrúðs,
eyrarrósin skartar og skín,
skógarrunnar anga.
Ótal blátærir bunulækir
bulla við mig glaðlega,
kitlandi sporðaköst silunga
vekja sæluhroll um mig alla.

Er haustar koma af heiðum
hundruð farandsöngfugla,
voldugur kliður þeirra, kór
með kostulegri raddskipan.
Síðkvöldarökkrið svífur að
svalir haustvindar leika
á stríða, þanda, strengi mína
straumþunga niðandi óma.

Við ósinn bíður Ægir konugur
með útbreiddan faðm sinn,
en riðst á flóði upp farveg minn.
Þegar fjarar hefni ég mín.
Ég læði jökulskoli langt út
og lita fjörðinn öskugráan,
en aðeins örskamma stund,
ofurkrafturinn sigrar mig.

Sandöldur Sjávarkonungs
og skolugar leirur mínar
skapa fagra glitrandi fleti
sem fyllast af iðandi lífi.
Kári konungur vinda, gárar
kynjamyndir á spegilgljáann
Ægi, mér Árdrottningunni
og íshjálmi jökulsins til dýrðar.

Samið fyrir píanótónaflóð.

Edda Magg.




















 
Edda Magnúsdóttir
1936 - ...


Ljóð eftir Eddu Magnúsdóttur

ljóð no 102
Áin