Vorsól
Svanir fljúga hratt til heiða,
huga minn til fjalla seiða.
Vill mér nokkur götu greiða?
Glóir sól um höf og lönd.
Viltu ekki, löngun, leiða
litla barnið þér við hönd?

*

Nú finn ég vorsins heiði í hjarta.
Horfin, dáin nóttin svarta.
Ótal drauma blíða, bjarta
barstu, vorsól, inn til mín.
Það er engin þörf að kvarta,
þegar blessuð sólin skín.

Í vetur gat ég sagt með sanni:
Svart er yfir þessu ranni.
Sérhvert gleðibros í banni,
blasir næturauðnin við.
- Drottinn, þá er döprum manni
dýrsta gjöfin sólskinið!

Nú er hafinn annar óður.
Angar lífsins Berurjóður.
Innra hjá mér æskugróður.
Óði mínum létt um spor.
Ég þakka af hjarta, guð minn góður,
gjafir þínar, sól og vor.

Hillir uppi öldufalda.
Austurleiðir vil ég halda.
Sestu, æskuvon, til valda,
vorsins bláa himni lík.
Ég á öllum gott að gjalda,
gleði mín er djúp og rík.  
Stefán frá Hvítadal
1887 - 1933


Ljóð eftir Stefán frá Hvítadal

Þróttleysi
Hún kyssti mig
Haustið nálgast
Ég vil burt
Vorsól
Erla, góða Erla
Yfir lífsins svörtu sanda
Gleð þig, særða sál
Aðfangadagskvöld jóla 1912