Árstíð
Eftir miðnættið læði ég fótum í stígvél og vef kroppinn í sumargræna kápu. Það er njókalt úti og hvergi bjarmar af tungli eða stjörnu. Bæjarbúar eru kvöldsvæfir – hvergi neinn á ferli og gluggar gapa dimmir við næturferðalangi. Nema í blokkinni við sundlaugina. Á þriðju hæð til hægri logar pappírslampi á borði og í skini hans miðaldra kona að lesa bréf frá manni. Hann býr á Svalbarða þessi maður og segir að bráðum breyti um árstíð og þetta eilífa helvítis myrkur hopi. Hann hlakki til að sjá litinn á húsunum í Longyearbænum.  
Anna Lára Steindal
1970 - ...


Ljóð eftir Önnu Láru Steindal

Árstíð
Espadrillur
Harmónikka
Nekt
Töfrasproti
Ylbrá