Nekt
Seinna rölti ég út í hermannagrænu kanaúlpunni til að setjast á bekk og glápa upp í dauflýstan glugga listakonunnar sem býr í bárujárnsklæddu húsi ekki langt frá okkur. Hún er dapurleg í heyfingum, klædd í óhreinan greiðsluslopp og situr einbeitt við stórt tréborð að rissa upp myndir af berum karlmönnum. Ég þekki suma þeirra og veit að hún er að hugsa um hvernig lífið væri núna – já, nákvæmlega einmitt núna – ef þessir menn hefðu efnt öll þessi loforð sem þeir sviku en svikið þau fáu heit sem þeir stóðu við. Hvernig? Svo rífur hún myndirnar og slekkur ljósið. Staulast að rauðum dívan í myrkrinu og leggst þar á bakið að þylja barnavers sem einhver kenndi henni fyrir löngu. Mér er orðið hrollkalt en það verður bara að hafa það. Ég sit áfram ein í hálfrökkri og hugsa mitt.