Trúarjátning
Ég horfi djúpt í augun á sjálfum mér
og læt það vaða í vaskinn.

Og það er trú mín að tunglið ilmi
eins og hálfétið epli
meðan augað á mér
blæðir út í nóttina
eins og ofbráð
og
ótímabær
dagrenning.

Það er helvítis klisja en ég kemst ekki fyrir hana
að í ljóðum eru aðeins tveir tímar
dagur og nótt
alltaf upphaf og endir
aldrei þetta áberandi miðlæga
sem læsir allt í greyp sinni eins og gráðugur
svefnhnefi sem stígur og hnígur
eins og velsmurður traktor eða hafalda.

Ég elskaði einu sinni konu
með vaxtalag mótorhjóls
en tilfinningar mínar brunnu upp
eins og hjólbarði sem hringsnýst
á svörtu malbiki og allt stefndi í mikla hvell
en það kom ekkert út úr þessu
engin sköpun enginn nýr heimur
ekki neitt, nema ófullnægð óburðug hvöt
til að sökkva höndunum aftan í hárið á annarri manneskju
rífa fast og segja: Þú ert mitt.

Ég geri þetta stundum við sjálfan mig.
Tekk í hnakkadrambið á mér og toga í skinnið
umkomulaus eins og blautur kettlingur
og þó ég megni ekki að lofta mér
þá veit ég að minnsta kosti að líf mitt
er í mínum eigin höndum
85 kílógramma þungt
og þyngist meðan ég tóri.

Þetta flak liggur ekki á öðrum.
 
Todd Richardsson
1962 - ...
Hafðu þetta!


Ljóð eftir Todd Richardsson

Upplýsingar um Reykjavík
Hvernig var helgin?
Land færitækjanna
Æskustöðvarnar
Því að öll erum við dýr...
Trúarjátning