Fjarri
Nú sit ég einn í svölum aftan-kalda
og silfurhvítum horfi eftir linda,
sem bungar fyrir blástri sunnanvinda,
þar blá og dimm sig reisir fjarðar-alda.

Heill sértú, blær, og vonarljósið valda,
sem veit ég af að baki dökkra tinda,
og heill sértú, þú hreinust allra mynda,
sem hylst mér nú á bakvið jökulfalda.

Þig skal ég, mey, í mínum huga geyma,
og aldrei muntu mér úr minni líða,
þú munarskæra, sem ég unni lengi.

Um þig mig skal á dimmri nóttu dreyma,
og þegar ljómar fagrahvelið fríða,
þá fyrir þig ég hreyfi gígjustrengi.  
Benedikt Gröndal
1826 - 1907


Ljóð eftir Benedikt Gröndal

Staka
Úr Gaman og alvara
Babbi segir
Sæla
Kvöld
Fjarri