Það snjóar í garðinn
Það fennir yfir fólkið sem fór eitt sinn um grund
og fól okkur að hafa sig í huga litla stund.
Við verðum samt að reyna að vekja upp minningar
og verma okkur við þær sem birtast hér og þar.

Við viljum að við munum hvort annað, mig og þig;
mundu mig, ég man þig, hugsar hver um sig.
En vonin vill sinn tíma og vonin hefur völd;
við viljum verða fræg og rík, núna strax í kvöld.

Svo hægist tímans asi, þá uppgötvar þú það;
engin börn né hjálparhönd, þú komst ekki á blað.
Það fennir yfir fólkið sem fer um þessa grund
og felur ekki neinum að minnast sín um stund.  
Snorri Pétur Eggertsson
1973 - ...


Ljóð eftir Snorra Pétur Eggertsson

Hjákonan
Af gefnu tilefni
Það snjóar í garðinn
Krossgötur
Í þrjátíu ára einsemd