Til skýsins
Sortnar þú ský!
suðrinu í
og síga brúnir lætur;
eitthvað að þér
eins og að mér
amar; ég sé, þú grætur.

Virðist þó greið
liggja þín leið
um ljósar himinbrautir;
en niðri hér
æ mæta mér
myrkur og vegaþrautir.

Hraðfara ský!
flýt þér og flý
frá þessum brautum harma;
jörðu því hver
of nærri er
oft hlýtur væta hvarma.  
Jón Thoroddsen
1818 - 1868


Ljóð eftir Jón Thoroddsen

Á nóttu
Vorvísa
Til skýsins
Krummavísur