Strikum yfir stóru orðin
Strikum yfir stóru orðin,
standa við þau minni reynum.
Skjöllum ekki skrílsins vammir,
skiljum sjálfir, hvað vér meinum

Fleiprum ei, að frelsi höfum,
fyrr en sjálfir hugsa þorum.
Segjum ekki að vér hlaupum,
er í sömu hjökkum sporum.

Frelsið er ei verðlögð vara,
veitist ei með tómum lögum.
Það er andans eigin dóttir,
ekki mynd úr gömlum sögum.

Enginn verður frjáls, þótt fari
feikna-hring í tjóðurbandi.
Myldur fúnum trúar-taumum
teymist hvergi frelsis-andi.

Hugsið ei að það nægi
efst á blaði "frelsi" að stafa.
Háleit orð sem heimskir fleipra,
hefna sín og verða' að kafa.

Gjálfurandinn sæði sáir.
Sumar líður. Fólkið trúir.
Væntir eikur upp þar spretti.
Allt um haust í netlum grúir.

Ryðjum akur! Arfann slítum
upp með hleypidóma rótum.
Hismin út úr útsáðstrogum!
Allt, sem sáð er, kanna hljótum.

Byrjum innst í eigin hjarta,
allt, sem sáð er, kanna hljótum.
Gjálfurfræin út úr anda,
út með gamals þrældóms rótum.

Burt með holu hismisorðin,
hrokareiging, froðuspenning.
Burt með raga skríldóms-skjallið!
Skiljum heimsins sönnu menning.  
Hannes Hafstein
1861 - 1922


Ljóð eftir Hannes Hafstein

Stormur
Nei, smáfríð er hún ekki
Þorsklof
Sprettur
Fjalldrapi
Ástarjátning
Sprettur
Strikum yfir stóru orðin
Þegar hnígur húm að Þorra
Vísur á sjó
Hraun í Öxnadal
Draumur
Áraskiptin 1901 - 1902
Ást og ótti