Hendur
Bylur úti
ylur inni

svona fjúkandi veður í mars
þegar fjallið verður ekki séð
og áin ekki heyrð
veður einsog þau sem annálar muna

sögðum ekki margt þetta kvöld
og af hverju sosum orð einsog þau skipti sköpum
horfðum meir en þorðum
virtumst meir en vorum

og bylurinn
þú hélst að hönd mín væri
akkerisfesti
og annað ekki nærri

? það sem við erum
erum við með öðrum

erum þeim lífið
erum þeim orð og tákn sem skreyta
staði og stund

vissa fylgja festa ?

krosslagðir fætur á stól
hönd undir vanga og hönd um aðra
og væg ljós
hugstilla

segjum ekki margt
sjáum ekki margt
erum ekki margt.
 
Sigmundur Ernir Rúnarsson
1961 - ...
Úr bókinni Sögur af aldri og efa.
JPV, 2000.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Sigmund Erni Rúnarsson

Louisiana II
Paris I
Ef
Hendur