Sóley
Ég lá á bakinu í blómabreiðu og dáðist að gulum blómunum og bláum skýlausum himninum. Þá dottaði Móðir Jörð og lygndi aftur augunum. Lítil stúlka settist hjá mér. Hún hét Sóley, eins og blómið, sem er fallegt en sem kýrnar vilja ekki. Það var líkt og ljósið myndaði eldbaug um höfuð hennar í hárinu sem það liðaðist í golunni. Hún bað mig að sýna sér heiminn. Ég stóð upp og tók í hönd hennar og leiddi hana að Viskubrunninum til að gefa henni að drekka. Það kom á hana sorgarsvipur, hún fölnaði upp, og visnaði. Ég sá mér til skelfingar að ég hafði óvart slitið hana upp með rótum.