Aldrei biður neinn að heilsa!
Það blæs að venju bölvuð norðanáttin
og blásvört skýin raða sér á jötu.
Þá himinn opnast; hellir Guð úr fötu
því Hann á regnið, dýrðina og máttinn..

Á rassinn sest og reyni að horfa á þáttinn
um rannsókn máls í landi vesturþýskra.
Er vindurinn og veggir saman pískra:
"Er Werner sekur?" staulast ég í háttinn.

Tennurnar bursta, tek upp næsta þátt.
Trítla upp stigann, þreyttur, leggst í rúmið.
Vitundin sofnar. Frá vökulöndum ber.

Hrekk upp við dynk sem drepið væri hátt
dyrnar á. Rís upp. Fölur stari í húmið.
Þrastarblóð rennur rauðmyrkt niður gler.  
Sigtryggur Magnason
1974 - ...
Úr bókinni Ljóð ungra skálda.
Mál og menning, 2001.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Sigtrygg Magnason

Herjólfur er hættur að elska
Aldrei biður neinn að heilsa!
Friedrich Nietzsche með vasabókina sína á kaffihúsi