Tveir hvítir svanir
Draumur 1: Tveir hvítir svanir standa í flæðamálinu. Geislar kvöldsólarinnar leika um sveigða hálsa þeirra. Lauf trjánna gullin líkt og sólin.

Draumur 2: Tveir hvítir svanir synda saman. Yfirborð vatnsins gárast er þeir líða hjá. Þytur í föllnu laufi.

Draumur 3: Tveir hvítir svanir. Annar fallinn. Naktar trjágreinar endurkastast í bláum fletinum. Ilmur af frosti.

Frost.

Kaldar tær. Krepptar í þröngum gúmmískóm. Lopahúfa sem stingur. Fallinn svanur í poka.

Sorg.

Hjarta sem slær of fast. Fótleggir sem bera ekki þungan. Andlit sem skolast af.

Tóm.

Heilög gröf og sjórinn og seltubragð af vörum.
 
Hrafnhildur Anna Runolfsdottir
1991 - ...


Ljóð eftir Hrafnhildi Önnu Runolfsdottur

Manstu
Ég er þín
Tveir hvítir svanir