Laugar í Reykjadal
Forboði sumarsins birtist við brún
bráðnandi fannir við lækina hjala.
Laufblöðin vakna, lit slær á tún
lífsandinn strýkur um grundir og bala.
Bíður í ofvæni brosandi landi,
bárurnar leika við klappir og sand.

Víkur úr huganum vetrarins grámi
vaknar í hjörtunum frelsisins þrá.
Léttur er fóturinn, lokið er námi
langþráðu takmarki hægt var að ná.
Bjartur er dagurinn, brjóstið er rótt
björt er hin vökula heimskautanótt.

Tíminn í áföngum lokkandi líður
læðist um vonanna stræti og torg.
Framandi ósnortin framtíðin bíður
færandi hamingju, gleði og sorg.
Lífið er brothætt, lánið er gjöf
leiktu þér aldrei á tæpustu nöf.

Hér hef ég dvalið um daga og nætur
drukkið minn fróðleik af nægtanna skál.
Hér hef ég svefndrukkinn farið á fætur
fagnað og kviðið mín leitandi sál.
Hér hef ég setið, lesið og lært
líf mitt að ákveðnu takmarki fært.

Ég flyt ykkur þakkir með fögnuð í hjarta
framtíðin blasir svo jákvæð við mér.
Ég man ykkur ætíð sem minningu bjarta
og mannlífið allt sem ég upplifði hér.
Því margt hef ég lært hér og lifað og reynt
og Laugum í Reykjadal gleymi ég seint.  
Hákon Aðalsteinsson
1935 - ...
Úr bókinni <a href="http://www.horpuutgafan.is/ljod/index.html" target="new">Imbra</a>.
Hörpuútgáfan, 2002.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Hákon Aðalsteinsson

Fjallganga
Laugar í Reykjadal
Ákall