Haust
Eftir sumarlanga dvöl
meðal blómanna
er ég komin heim
bústin og borginmannleg
í rauðum gallabuxum
sem oftar en einusinni
fengu að vökna í bæjarlæknum

þá ber svo við að snorrabrautin
hefur þanist út og harðnað
í gráu ryki gnæfa húsin
uppúr steinmörkinni
og hvergi sér í gras

allt hefur stækkað nema kytran okkar
í kjallaranum. En einnig þar
hafa stórmerki gerst:
undrandi horfi ég
á kringlótt slefandi andlit
lítils bróður sem himnarnir hafa sent okkur
og mamma hefur búið um
í kommóðuskúffu.  
Ingibjörg Haraldsdóttir
1942 - ...


Ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur

Kona
Kona
Haust
Rigning í Reykjavík
Jólaskemmtun
Húm
Skáldkonan sem hvarf
Dúfan mín