Ég vaknaði snemma
Milt í morgunsári
mætast nótt og dagur.
Hlær í vorsins heiði
himinbláminn fagur.

Einn er ég á erli,
uni niður við sjóinn.
Blæjalogn - og bátur
burtu sérhver róinn.

Litlar bláar bárur
brotna upp við steina.
Æður fleytir ungum
inn á milli hleina.

Ennþá man ég eftir
æskubjörtum stundum,
á kolaveiðakænum
krakkarnir við undum.

Bárum við í búið
býsna margan dráttinn,
fórum árla á fætur,
fengumst seint í háttinn.

Fólkið bregður blundi
og byrjar starfa nýja.
Senn mun þögnin þoka,
þarna flýgur kría.  
Jón úr Vör
1917 - 2000
Allur réttur áskilinn<br>Bryndísi Kristjánsdóttur


Ljóð eftir Jón úr Vör

Við sigurmerkið
Við landsteina
Stillt og hljótt
Sofandi barn
Lítill drengur
Ég vaknaði snemma
Desember
Brot úr jólakvæði
Jól