Rjómabúið að Baugstöðum
Margrét og Guðrún
huga að kaffinu
hella því rjúkandi í fanta
og segja rösklega
,,kom inn!\"
um leið og bankað er
á búðarhurðina

afgreiða vörurnar
mjúkum, ósprungnum
fingrum

aldeilis hlessa
yfir mýkt fingranna

löngu hættar
að hnoða úr rjómanum
,,Danish Butter\"

Rekja upp úr vösunum
draumgarn tvinnað
fuglum

Í gær dreymdi Guðrúnu
Stelk í móa
en Margréti
Keldusvín undir sænginni

Ráða í draumana
glæsta framtíð sína
og minnast þess

um leið og þær sötra
á kaffinu
og kreppa kaldar tærnar

að Guðrún á frænda
sem á vin
sem ræður veðurspána
af söng Lóunnar
á lágnætti

af votum þúfum

En það er sama
hvort þær dreymir
Jaðrakan eða Spóa
móðan á rúðunni
gefur þokuna úti
til kynna

svo þær brosa
stimamjúkar til
sveitunga sinna

og kreppa mjúkum
fingrum um fantana  
Bjarney Gísladóttir
1975 - ...


Ljóð eftir Bjarney

Skúmaskot
Smiðurinn
Fjaðrir og fiður
Rjómabúið að Baugstöðum