HUGMYND ORÐANNA
I

Heimurinn er fullur af orðum
í ýmsum hlutverkum.
Flest hafa eitthvað fyrir stafni
sum atvinnulaus í bili
en margt kemur þó til greina.
Þau finna afstöðu í heild
af einskærri reglusemi
eða af hreinni tilviljun.
Oft er vit og jafnvel ásetningur
í verkahring orðanna
oft fallega sett saman
af viðkvæmu fegurðarskyni
og nauðsynlegu forræði formsins.

II

Orðin eru álík mannfólkinu
gleyma stundum að þau eiga
vængi að fljúga með
að þau eru ekki bundin
þessum tíma og þessum stað.
Þau flýta sér í kjölfar daganna
mynda áhyggjufullar setningar
sögur eldri en tíminn
en trúa ekki eigin orðum.
Héldu kannski að þau
væru ekki sjálfstæð, væru ekki
til án bóka eða hugmynda
að þau kæmu ekki frá
landi kyrrðarinnar, væru ekki
tilbrigði við áður óþekkt stef
væru ekki skyld innbyrðis
eins og bylgjur hafsins
eins og skrúðganga skýjanna.

III

Já, orðin eru eins og manneskjurnar.
Stundum leggjast þau við fætur
skáldsins, makindalega, eins og
lífið sé eitthvert föndur
einhver leikur að orðum
ellegar nýtt og notað karma.
Að þau þyrftu ekki sjálf
að raða sér niður í setningar
eftir fyrirfram ákveðnum reglum
ekki sjálf að hugsa um
hljómfræði, setningar og föll.
Gætu hreinlega verið áhorfendur
að eigin lífi, gætu verið einskonar
skiptiborð fyrir öldur ljósvakans
án þess að spyrja
hver er ég? hvaðan kem ég?

IV

Þau heyja orustur á síðum
bókanna, og metast um
hver er best bundin inn
hégómlega klædd, í nýjasta skinn.
Fylgja náttúrunnar lögum
heyja daglegt strit
en þjáningar þjóðanna snerta
ekki þetta litla vit.
Önnur lítil, auðmjúk strik
gefin saman augnablik
í sérhljóð og samhljóð af og til
af heilögum anda, hérumbil.

V

Þau eru full áhuga á ýmsu
en þekkja ekki sjálf sig
né aðra til fulls.
Vita ekki að ættbálkur þeirra
er eldri en veröldin sjálf
að mikil bókmenntaleg virki
voru reist, að engu var
til sparað af iðnaðarmönnum
ríkisins, það sést.
Að heimkynni nafnlausra orða
finnast ekki í alfræðibók
eins og ýmislegt annað
að hringrás þeirra og tilbrigði
láta aðeins í ljós hina fyrstu þrá
að Guð skapaði í upphafi
orðin í sinni mynd.

VI

Í brjóstinu búa seiðandi
söngvar, öll heimsins orð
en varirnar þegja.
Þessa nótt í forgarðinum
lótusblómið grætur
hjartavinur lífs og dauða
rifinn upp með rótum.  
T.G. Nordahl
1960 - ...


Ljóð eftir T.G. Nordahl

MYRKUR LOKAÐRA AUGNA
HUGMYND ORÐANNA
BETLEHEMSKIRKJAN
REYKJAVÍK
DÖKKHÆRÐA BLONDÍNAN
LJÓSBROT
SARAJEVO
UNDIR HÚÐINNI
SÆT ER ÞÍN ÁRA LÁRA