Huldufólkssögur III
Þótt sólin sé horfin í haf dregur hún ekki gullrauðan feld sinn í djúpið með sér, heldur breiðir hann yfir himinhvolfið svo við fáum notið ljóssins svolítið lengur. Frá bænum sjáum við börnin ganga og vitum að nú ætla þau til berja eftir strangan sumardag. Við fylgjum þeim á hlaupum, stökkvum yfir læki og klifrum upp á steina. Við nælum okkur í bláber úr ílátum barnanna en þau veita því sjaldnast athygli þótt eitthvað hverfi. En við vitum af skýjunum bak við fjöllin í austri. Dökkum óveðursskýjum sem læðast mjúkum þófum eftir himinhvolfinu uns þau steypa sér skyndilega yfir kambinn og æða niður hlíðina með leiftrandi tennur í kolmyrku gininu. Við verðum að fylgja börnunum bóndans, því að í kvöldstormunum erum það aðeins við sem þekkjum leiðina heim.  
Valgarður Lyngdal Jónsson
1972 - ...
Birtist í bókinni NEMA-ljóð og sögur.
Gefin út af nemum í Kennaraháskóla Íslands 1996.


Ljóð eftir Valgarð Lyngdal Jónsson

Vegaljóð
Huldufólkssögur I
Huldufólkssögur II
Huldufólkssögur III