Beðið í leynum
Ekki er ég að biðja um handayfirlagningu
til þess að blessa burt syndir mínar
og enga þörf hef ég fyrir bannfæringu
á mannlegum hugsunum mínum.
En er það hrein og tær mannvonska í mér
að biðja faðirvorið í leynum
þar sem faðirinn sér mig
en leita ekki ásjár mér heilagri manna
sem þurfa ekki að biðja í leynum
heldur gaspra hátt upp í himininn
svo jafnvel fuglarnir heyra óskir þeirra?

Jesús sagði biðjið í leynum,
inní herbergi þar sem enginn sér
nema faðirinn sem sér í leynum
og ekki verðið þið bænheyrðir
fyrir mælgi ykkar.
Hví ætti ég þá að biðja hátt
og í tungum þar sem allir heyra
þegar mennirnir geta hvort sem er
ekki bænheyrt mig þó þeir heyri.

Og hvort sem ég er Gyðingur eða Íslendingur,
og hvort sem ég á biblíumyndir úr sunnudagaskóla
og hvort sem mér finnst ég vera heilagur eða syndugur
og hvort sem ég hef borgað skatt eða tíund
og hvort sem ég hef predikað einn sunnudag eða tvo
mun þá ekki drottinn heyra mig segja:
vertu mér syndugum líknsamur;
án þess að ég eigi eitthvað inni hjá Guði
eða hann eigi inni hjá mér.
 
Hörður Andri Steingrímsson
1982 - ...
Úr Í upphafi skapaði Guð


Ljóð eftir Hörð Andra Steingrímsson

Dýrgripir
Frá skrifstofu hins hæsta
Beðið í leynum
Fall mannsins
Lofsöngur