Kannt ekki að dansa
Frá þeim litla bletti sem ég stend á
virðist himininn stjörnubjartur og tunglið fullt.
En þar sem þú stendur innan um hvítu liljurnar
2 lengdarbaugum og 3 breiddarbaugum í burtu
er sjónarhornið öðruvísi.
Og þú kannt ekki að dansa

Sorgmæddur yfir að lífið tók enda,
öll þessi innihaldslausa væntumþykja.
Djöfulsins fáviskan sem hrjáir meðalmanninn
var að éta úr þér miltað
og egóistarnir sátu um hjartað
eins og hrægammar yfir látinni rollu.
Og þú kannt ekki að dansa.

Barnið í mér braust út
þegar fullt tunglið óð í skýjum
Ég hljóp um eins og asni með tárin í augunum.
Blautt hár mitt fraus,
stóð út í loftið eins og grýlukerti.
En þegar ég hreyfði mig,
hristist hárið og hljómaði
líkt og klukknabjöllur á hátíðarstundu.
Og þú kannt ekki að dansa

Þú lést örugglega ekki eins og fífl
sast í votu grasinu í agaðri stellingu
og fórst með bænir fyrir guð þinn.
Mjallahvít mjúk ábreiða,
gæsahúð gerir vart við sig
æskudraumur með mjólkurfroðu
Og þú kannt ekki að dansa.

Þú steigst ofan á mig
auðmjúk hörfaði ég til hliðar.
Stundum var eins og fiskiaugun þín
horfðu beint á varnarlausan líkama minn
beint á garnagaulið í maganum á mér.
Og þú kannt ekki að dansa.

Já eitt sinn elskaði ég þig
án tékkaheftis og tékkaábyrgðar
án skilyrða og eftirsjár
En þegar korktappinn var tekinn úr flöskunni
steig alkahólið upp og bauð góða kvöldið.
Þetta varð til þess að rifja upp
allt sem ég hafði gleymt.
En ég mun alltaf muna eftir því að
þú kannt ekki að dansa.
 
Gunnur Ósk án efa
1978 - ...


Ljóð eftir Gunni Ósk án efa

Tilhlökkun
Án titils
Kryddaður hversdagsleikinn
Kannt ekki að dansa