Ástarbarn
Ég festi sólblóm á vegginn,
bítlaplakat og engil
fyrir ofan rúmið þitt.

Meðan ég elda grautinn
syngur þú og dansar
með Pepper liðsforingja
og vinum hans,
á hátíð herra Flugdreka.

Fallegi drengur,
þú ert af þriðju kynslóð
blómabarna
í heimi þar sem byssumenn
og ræningjar fara með völd.

Meðan þú borðar grautinn
skulum við hlæja að fréttunum;
það er betra
en að snúa sér undan.

Við eigum sólblóm,
bítlaplötur og engla . . .

Við skulum gæta þeirra vel.

 
Bjarni Gunnarsson
1968 - ...
Til Nikulásar Nóa


Ljóð eftir Bjarna Gunnarsson

Ástarbarn
Myrkviði
Kona
Apríl
Litla líf
Kókópuffskipið