pysja
Haföldurnar gæla við fjöruborðið. Sólin er að setjast. Lítil lundapysja í skrautlegum pappakassa frá Ikea, gægist út um gat og bíður óþolinmóð eftir að losna úr prísund sinni. Ég tek gætilega utan um hana og held á henni niður að hafinu sem hún þekkir og þráir svo heitt.
Ég rétti þér viðkvæman fuglinn og þú tekur utan um litla kroppinn og finnur litla hjartað berjast eins og brjálað. Þú finnur ylinn frá þessum litla varnarlausa kroppi. Þú leyfir vængjum hennar að leika frjálsum. Þú heldur með báðum höndum utan um hana og handleggir þínir lyfta henni hratt upp og niður og hún baðar út vængjunum og gerir sig líklega til flugs.
Þegar þú finnur að hún er tilbúin leyfir þú henni að fljúga frjálsri út á hafið.
Þú skilur hana og hún veit núna að þú ert bjargvættur hennar en ekki óvinur eins og hún hélt kannski fyrst.
Við dokum við í fjörusandinum um stund og fylgjumst með henni fljúga og setjast loks á hafið. Þegar hún hverfur inn í sólsetrið höldum við heim á leið með skóna fulla af sandi og hjörtun full af gleði og pínulitlum söknuði eftir pysjunni litlu sem var svo viðkæm en samt svo sterk. Mestur er samt söknuðurinn eftir tímanum sem flýgur svo hratt. Tímanum, sem við njótum stundum svo vel en ekki alltaf. Ég óska að tíminn stæði kyrr og við gætum varðveitt þessa tilfinningu þegar við gerum eitthvað svona dásamlegt og náum að snerta fegurð lífsins.