Þegar hnígur húm að Þorra
Þegar hnígur húm að Þorra,
oft ég hygg til feðra vorra,
og þá fyrst og fremst til Snorra,
sem framdi Háttatal

Áður sat hann skýr að Skúla,
og þar skálda lét sinn túla,
bæði um hann og Hákon fúla,
sem hirti frelsi vort

Fögur knáttu gullker geiga,
sem að gaman væri að eiga,
full af safa sætra veiga,
er sveif á alla drótt

Snorri kallinn kunni að svalla,
og að kæta rekka snjalla,
þegar húmi tók að halla,
í höllu Skúla jarls

Og hann þoldi að þreyta bögur
og að þylja fornar sögur,
já, allt fram til klukkan fjögur,
þá fór hann í sitt ból

Samt frá hilmi heim hann stundar
út til helgrar fósturgrundar
og sitt skip að búa skundar
það skáldmæringa val

Þá kom bann frá herra Hákon,
sem var harður eins og Drákon.
"Ég er hákon -," sagði Hákon,
"ég er hákonservatív"

"Ég vil út! Ég vil út að bragði!
Ég vil út", þá kempan sagði.
"Ég vil út," og út hann lagði
til Íslands sama dag.

Af því beið hann bana síðar,
fyrir buðlungs vélar stríðar.
Síðan gráta hrímgar hlíðar
og holt um Borgarfjörð.  
Hannes Hafstein
1861 - 1922


Ljóð eftir Hannes Hafstein

Stormur
Nei, smáfríð er hún ekki
Þorsklof
Sprettur
Fjalldrapi
Ástarjátning
Sprettur
Strikum yfir stóru orðin
Þegar hnígur húm að Þorra
Vísur á sjó
Hraun í Öxnadal
Draumur
Áraskiptin 1901 - 1902
Ást og ótti