Fyrirboðar
1.

Ég er dóttirin

og í hafniðinum
heyrist allt

og í hafniðinum
syngja raddir
sem upphefja engan
heldur þjóna eingöngu
þeim eina tilgangi
að vera og heyrast ekki

og í hafniðinum
hafa aðrar raddir sungið
með tónum sem aðeins birtast
í hljóðlausum
líflausum orðum
á vörum sem aldrei bærast.


2.

Ég er dóttirin

og aðeins ég
skynja þýðingu þess
að rekaviður dagsins
er ekki ormétinn
að innsta hring

og aðeins ég
skynja þýðingu þess
að þessir köldu
blautu klettar
boða algera þögn

og aðeins ég
skynja þýðingu þess
að dagurinn
hefur dregið í lengstu lög
að sýna skömmustuleg
svipbrigði sín

já – aðeins ég
er þess megnug að skynja
að allir þessir fyrirboðar
hafa í öllum sínum myndum
aðeins boðað það
sem þegar er orðið

og aðeins ég ein
skynja þá blíðu fingur
sem leika um þig
og veit að hafniðurinn
er söngurinn þinn
í djúpunum

(í grænu
grænbláu
bláu biksvörtu
djúpunum)

þar sem óp ykkar
heyrðust ekki
- en samt heyrði ég
á þeirri stundu
að sameiginleg fortíð okkar
var að breytast og umbreytast
í einmannaleg minningarbrot

og þá
og þá á þeirri stundu
heyrði ég ópin þín systir

og þaðan í frá
gat ég aðeins
(og þó með naumindum)
sagt;

ég er dóttirin
sem drukknaði ekki.
 
Gunnar Liljendal
1984 - ...


Ljóð eftir Gunnar Liljendal

Ariana
Sögur
Fyrirboðar
Í eyðimörkinni
Mólakúlú
Øst for Paradis
Skrifað 7. febrúar 2006: Þegar kynslóðin sem mundi var að mestu horfin.