Øst for Paradis
(Samtímis tókum við þá ákvörðun að lifa eftir
þeirri einföldu reglu að hafa aldrei þekkst)

1.
Jafnvel laufblöðin urðu stærri
hérna megin landamæra
- og allt varð paradís -

þetta var síðasta kaffihúsið;
rigning úti
húsgögnin slitin
og ég sumpart líka.


„Eigum við ekki bara að byrja á kaffinu?“

„Jú....endilega“

„Það byrjar allt - og endar - með kaffi“


Já - svo mörg voru orð okkar um kaffi.

en þau sem við sögðum ekki
og snérust kannski minnst
um leyndardóma kaffidrykkjunnar
ómuðu enn og teygðust
langt fram á nóttina.

2.
Þetta var síðasta kaffihúsið
mjór stigagangur og smáengill
sem vísar manni ábúðarfullur upp

einhverra hluta vegna
er hann með öllu blygðunarlaus
og otar fram rauðu hjarta
á berum mallakútnum:
- Opið -

hráslagaveður
og húsgögnin eru slitin

á rúðuna klessast
haustlituð laufblöð
(óvenjustór)

Já - það er rigningarsuddi úti

en stormur inni

um útnárasker fjúka
líkamar okkar þvalir
og klessast saman.

3.
Dagarnir líða
í ár
(og nokkra eigum við enn eftir)

pattaralegur smáengill
bendir í sífellu upp
sjálfskipaður dyravörður himna:
„réttu mér seðil – segðu ekki orð,
og mundu svo bara að æðrast“

þú þjónar í Paradisgade níu
- á annarri hæð -

ég bíð eftir opnun
í tvöfaldri röð

og hvísla í malbikaða götuna
„sama er mér“

þú ert hér
og hér er ég

og hérna megin
við þessi mæri

var okkar paradís.

4.
Laufblöðin sem falla
- aftur -

dagarnir foknir burt

laufblöðin haustlituð á malbikinu
minna aðeins á orðin þungu

sem féllu ekki milli okkar
er vorum við í paradís

og án þess að vita nokkuð
veit ég:

að allt var stærra! að allt var betra!

að allt er núna....

austan fyrir paradís.  
Gunnar Liljendal
1984 - ...


Ljóð eftir Gunnar Liljendal

Ariana
Sögur
Fyrirboðar
Í eyðimörkinni
Mólakúlú
Øst for Paradis
Skrifað 7. febrúar 2006: Þegar kynslóðin sem mundi var að mestu horfin.