Nafnið
'en orðstír deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.'
Hún lá endilöng á gangstéttinni í Bankastræti og skrifaði nafnið sitt á grasið við götukantinn.
Hún skrifaði með rauðu bleki svo nafnið væri vel sjáanlegt á grænu grasinu. Hún var ekki í neinum fötum en hafði vafið gamalli sæng utan um sig til þess að hylja nekt sína.
Hún var hálfhrædd um að einhver myndi amast við henni, þar sem hún lá á maganum þvert yfir gangveginn, eða saka hana um að fremja skemmdarverk með því að pára svona á grasið. En fólkið virtist ekki taka eftir henni, heldur steig hiklaust ofan á hana á hraðferð sinnni upp eða niður götuna
Hana var farið að verkja í bakið af því að vera svona fótum troðin en lét sig hafa það. Hún vissi sem var að hún varð að gera allt fyrir nafnið.
Þegar hún hafði lokið við að skrifa hálfa leið frá kvennaklósettinu niður að Lækjargötu tók hún sér smáhvíld og kveikti sér í sígarettu.
Hún saug áfergjulega að sér reykinn og leit yfir verk sitt.
Við augum hennar blasti kraftaverk og henni varð ljóst að Guð hafði stýrt hendi hennar, því á hverjum þeim stað sem hún hafði skrifað nafnið sitt uxu nú rauðar rósir.
Hún drap í sígarettunni og fleygði henni umhugsunarlaust í göturæsið. Svo hélt hún áfram að skrifa.
En nú þurfti hún að skrifa mun hraðar en áður því sólin var horfin, dökkir kólgubakkar voru að hrannast upp á himninum og það leit út fyrir rigningu.
Hún varð að ljúka verkinu áður en það byrjaði að rigna því líklega myndi gamla sængin sem hún notaði sem yfirhöfn gegnblotna ef það kæmi væta á hana.
Að lokum skrifaði hún síðasta stafinn. Verkið var fullkomnað og hún lagði frá sér pennann sigrihrósandi.
En þar sem hún sat þarna var hún skyndilega lostin skelfilegri hugsun, sem fyllti hana smátt og smátt nagandi óvissu.
Hún hafði ekki hugmynd um hvort rauða blekið sem hún hafði skrifað með væri vatnsekta.