Dagur beinanna
Þann dag
sem dauði þinn varð raunverulegur,
snertanlegur eins og mín eigin tilvera.

Þann dag
grét himinninn.

Sorg fimm langra ára
sló mig,
aftur og aftur.

Hvaðan kom þessi sorg?

Frá einmanaleika mínum,
frá söknuði mínum?

Get ekki flúið
hrollkaldan
óttann.
Ég tek honum með þökkum
elska hann
á hámarki
tilfinningarinnar.

Þann dag
sem þeir fundu þig,
klæddist ég hvítu.
Svört tár mín,
hrynjandi
krækiber,
uns gagnsæ.

Þá vissi ég
að ég var
heil.

Losun
afneitaðra
tilfinninga
gerði mig
léttari,
sterkari.

Meðan ég söng
nöfn þín
í samofnum bylgjum
sorgar og gleði.

Þann dag
sem þeir fundu þig,
klæddist ég hvítu.

Augun ljómuðu
tilfinningaskalanum.
Röddin
umbreyttist
úr sársauka í gleði.

Þann dag
sem þeir fundu
veðruð bein þín,
klæddist ég hvítu.

Vökvaði blóm sorgar minnar
tárum gleðinnar.  
Birgitta Jónsdóttir
1967 - ...
í minningu Charles Egils Hirt


Ljóð eftir Birgittu Jónsdóttur

Hin daglegu stríð hverdagsleikans
Dagur beinanna
Uppgjörið
Samruni
Tungumál steinanna
Ljóð fíflsins
Í nótt dreymdi mig
Meinið
S a g a
Mynd af Frigg
Stríðshetjur
Niðurtalning til stríðs
Fjallkonan