Flotkví
Innflytjandinn í höfninni
kom alla leið frá Rússlandi
til að selja okkur nýjan lit,
heilan skrokk og minna slit.
Um úthaf hann sigldi,
barinn af veðri og vindi
til þess eins að setjast að
á þessum einskis nýta stað.

Og enn sýnir hann varla á sér fararsnið.
Hikar ekki við að doka við,
virðist líka þetta tilgangslausa,
daglega amstur sem er tilvera hans.
Hann kemur ekki einu sinni í land,
virðist bíða þess að vatnið í kringum hann
frjósi, og bjóði honum þannig afsökun,
fullkomna afsökun,
til að fresta morgundeginum um ókomna tíð.

En erum við svo ólíkir, innflytjandinn og ég?
Er það ekki heimsins mesta böl að mega kjósa?
Ég játa að frelsið er lítið annað
en tálsýn sem gerir okkur kleift að sætta okkur við fangelsi
hversdagslegs lífs.
Ef ég væri frjáls eins og fuglinn, léttur eins og vindurinn,
ef ég væri hafið myndi ég líka frjósa.
 
Kristján Atli
1980 - ...


Ljóð eftir Kristján Atla

Kveðja
Aldursbrot
Flotkví
Ljóðið