Uppvask

þegar þú ert farinn
get ég einbeitt mér að uppvaskinu.

Naktir stíga diskar
heitir
uppúr sápufroðunni.
Fingur mínir leika að hnífum
þrýsta stálið.
Mig langar að vera hlutur
sveima um
í volgu sápuvatni
kólna á grind
verða glansandi
glansandi og köld.

Þá þyrfti ég ekki að skola andliti þínu
niður um frárennslið
eða bera út hjarta mitt
í ruslafötunni.
Hlaupa inn og læsa
hlusta við rúðuna.

Þótt ég hvítskúri eldhúsgólfið
þar til hugsanir drukkna í enninu
ertu stöðugt fyrir augum mínum.
Þú situr fyrir mér.
Mynd þín þrengir sér
inní ramma hversdagsins.
Þú stelur af mér
stelur af mér ró minni
og öryggi.

(1976)  
Þórdís Richardsdóttir
1951 - ...


Ljóð eftir Þórdísi Richardsdóttur

Uppvask
Skammdegi
Móðir
Heima á Íslandi
Ævintýramórall
Vitund útflytjandans
Vindhviður
Engillinn minn