Athvarfið
Ef ég á eitthvað önugt heima
og eitthvað, sem ég þarf að gleyma,
þá kem ég hingað hvert eitt sinn,
að heyra fagra sönginn þinn.

Og ég tek vor með ástarómi
og yl úr þínum hlýja rómi,
ef illur stormur úti hvín
og andar köldu á blómin mín.

Og þegar öllu er um mig lokað
og ekkert getur hliðum þokað,
þá á ég víðan unaðs heim,
sem opnast fyrir rómi þeim.  
Þorsteinn Erlingsson
1858 - 1914


Ljóð eftir Þorstein Erlingsson

Athvarfið
Rask
Ef æskan vill rétta þér örvandi hönd
Til Guðrúnar (Mansaungur)
Huldufólkið
Í Hlíðarendakoti
Snati og Óli
Hreiðrið mitt
Örbirgð og auður
Sólskríkjan
Hulda