Augu þín eru full tortryggni sonur minn
Veistu að ég gat ekki gefið þér brjóst, og gafst upp á þér
svo amma þín annaðist þig
inni hjá sér?
Veistu hve oft ég grét og bað Guð
um að gæta þín?
Veistu að ég hrópaði á Hann
hvar er ástin mín?
Veistu hve aum er sú und
sem enginn lækna kann?
Að sök mín er svört eins og nótt
og sorgin mér heitast ann?
Ég er enn bara barn og bíð þess hrædd
að hann laumi sér,
ljóti kallinn, skjótur eins og skugginn
í skotið hjá mér.