Gengið um götur Guðmundar góða
Nú göngum við fáfarinn slóða
í fótspor hans Guðmundar góða
Þið þekkið hann flest
það á ykkur sést
þökk sé háskólagenginu fróða.

Í Hörgárdal föðurlaus fæddur
af fjölmörgum heimilum klæddur
dugnaðargrey
sem guggnaði ei
þótt geðveikt hann oft væri mæddur.

Svo hélt hann til framandi landa
á Hornströndum skip náði að stranda
Fótinn hann braut
en lækningu hlaut
hjá Heilögum Reykhólskum anda.

Hann vígður var prestur hann Gvendur
og vinur hans fannst svo örendur.
Í sorg sinni bað
til Guðs, nema hvað
og síðan við ,,gott“ hann var kenndur.

Og sama var, hvar, hann var prestur
hjá almúga þótti hann bestur.
Hvar sem hann stóð
var fólksfjöldaslóð
sem fylgdi honum austur og vestur.

Um Skagafjörð ferðaðist gæinn
faglega vígði hann sæinn
og brunna um allt
ó boy, það var svalt
svo bauð hann, ómögum í bæinn.

Í Svarfaðadal sat á Völlum
þar sinnti vel starfi og öllum
oft þurfti hann þó
að setja á sig skó
og ganga á heiðum og fjöllum

Einn dag yfir Heljardalsheiði
hann fór ásamt fólki, frá Skeiði
þá hríðin skall á
og fjöldi fólks lá
svo fjórtán við bættust þá leiði.

Ég gæti sko sagt fleiri sögur
og sönglað hér vísur og bögur
Um góðasta Gvend
og verk hans í grennd
en göngu skal ljúka um fjögur.
 
Elín Kona Eddudóttir
1965 - ...
Gengið um götur Guðmundar góða frá Hólastað í Kolbeinsdal í hópi ferðamálafræðinema Hólaskóla


Ljóð eftir Elínu Konu Eddudóttur

Grýludraumar
Framadraumar Leppalúða
Kosningarnar 2013
Glugginn minn og glugginn þinn
Ölfusá
Gengið um götur Guðmundar góða
Kona í landi sona
2. desember 2022
Kvennakváraverkfall 24. október 2023
Valdeflingardraumur
Skólastjórn sem bitnar á…