Blómið
Nýfætt lokað blóm
bar visku og hæfileika innra með sér
það hefði getað blómstrað
deilt fegurð sinni með öllum heiminum,
og mér

En blómið skorti vatn og sól
og lífsins hvössu vindar blésu af krafti á litla blómið
og blómið sem var svo hrætt
það lokaðist enn fastar

Því enginn var gróðurinn umhverfis það
engin önnur blóm sem gátu varið það
eða tekið hluta af vindinum á sig
nei, sum blóm standa ein

Blómið óx
það náði fullri lengd eins og hin blómin
en það opnaðist ekki
blómstraði aldrei

Að lokum gerðist það
blómið gat ekki lengur haldið eigin þunga
stilkurinn var illa farinn
hann brotnaði á versta stað
og nú liggur blómið á kaldri jörðinni

Það reynir að muna
hvernig það var að vera eins og hin blómin
en það tekst ekki
það man ekki
og vindurinn heldur áfram að blása

Nú getur blómið ekkert gert nema horfa á lífið líða
ó svo hægt
það liggur í kvöl sinni
og veit að þetta brot mun aldrei gróa

Kannski er blómið innst inni sátt við það?
kannski finnur það minna fyrir vindinum þegar það liggur

En í fjarska eru lítil blóm sem sakna og gráta
aldrei fengu þau að sjá og þekkja blómið eins og það hefði getað orðið
þau þráðu að fá að sjá litina, finna ilminn
njóta nærveru þess

En þau fá aldrei að vita hvað hefði geta orðið
enginn fær að vita
 
Fjóla María Bjarnadóttir
1985 - ...
Þetta ljóð fjallar um móður mína sem er mjög andlega og líkamlega veik


Ljóð eftir Fjólu Maríu Bjarnadóttur

Blómið
Dóttir mín
Fossinn í mér
Kennari
Stelpan
Þessi hvíti sæti
Þrá
Þjáning yngri ára
Gamalt barn
Kæra almætti