Í nýja hörpustrengi
láttu vindubrúna falla
vatnið er engum vörn
hvítklædd kem ég yfir
með fangið fullt af mosa
gullinmuru og mjúkum steinum
hvísla að þér ljóði
svo máttugu
að virkisveggirnir molna

í mosasænginni
er allt sem þú syrgir
augu, gróandi
saga sem lifir
handan við hafið
alls staðar
þar sem augnablikin brenna

láttu vindubrúna falla
og sárinu blæðir
án þess að brandi sé brugðið
í varnarleysi vatnsins
vefjum við nýja strengi
og dimmrauðar myndir
djúpt, djúpt þar sem ljóðið
fellur til botns
af brúnni  
Sigrún Björnsdóttir
1956 - ...
Úr bókinni <a href="mailto:sigrunb@radvis.is?subject=[Pöntun]: Næturfæðing">Næturfæðing</a>.
Eigin útgáfa höfundar, 2002.
Allur réttur áskilinn höfundi.


Ljóð eftir Sigrúnu Björnsdóttur

Fyrir fugl
Fótsterk
Í nýja hörpustrengi
Glersjór
Bæn
Flugdraumur