Engillinn minn
Hvað felst í verkahring
engils

Koma sér á lappir
fyrir allar aldir
kveikja upp í sólinni
greiða skýjaflóka

Þvo og strauja kyrtla, vængi
fægja geislabauga
flokka syndir
niðri í kjallara, djöfullegur starfi
þurrka af portrettum

Halda almættinu (vinnuveitandanum)
í góðu skapi
biðja soninn og heilagan anda
að hjálpa sér

Engillinn minn

Mæta stundvíslega á fund
fyrir meðvirka engla
missa ekki af kóræfingu
englamyndatökunni – jólin nálgast
reyna að líkjast Brunó Ganz
þið munið – Himinn yfir Berlín

Þylja boðorðin:
þú skalt ekki skrökva
ekki falla fyrir freistingum
ljóta karlsins
ekki öskra og skella hurðum
fá brjálæðisköst
þú skalt ekki girnast eigur erkiengilsins
ekki sofa hjá verndarengli
og – guð almáttugur hjálpi okkur
ekki leggja nafn vinnuveitanda þíns
við hégóma

Engillinn minn

Einn á vakt
þótt heiður sé himinn
yfir Stórbabýlon

Engillinn minn

Hann, þessi Brunó
með glanz
var bara að leika

Engillinn minn

Stirður í vængjum
kyrtillinn hefur séð
sinn fífil fegri
geislabaugurinn á skjön
líður eins og fölskum héra
gangandi á línu

Engillinn minn

Nauðlendir með skelli
í polli

*

Engillinn þinn

Rexar og pexar
sópar öllu
undir teppið
liggur í bælinu
leyfir geislabaugnum
að ryðga  
Þórdís Richardsdóttir
1951 - ...


Ljóð eftir Þórdísi Richardsdóttur

Uppvask
Skammdegi
Móðir
Heima á Íslandi
Ævintýramórall
Vitund útflytjandans
Vindhviður
Engillinn minn