Skólastjórn sem bitnar á…
I
Varð fyrir smánun
af hendi skólastjóra
fyrir það eitt að standa með barni.
Barni sem ég var að kenna
sem átti erfitt bakland
erfitt félagslega
erfitt með koma líðan sinni og tilfinningum í orð.
Döpru og hræddu barni
sem treysti engum
og barði stundum frá sér.
Barni sem var samt alveg að ná þessu
betri líðan, orðaforðanum og traustinu
og listinni að eignast vin og halda honum.
Ég var byrjuð að sjá hamingju og sjálfsöryggi í augum þess.
Samvinna okkar var byrjuð að bera árangur.
Svo…
…var ég stödd í kaffistofu starfsfólks
í hópi kennara.
Við ræddum mikilvægi þess
að gefa börnum rödd og hlusta.
Allt í einu öskraði skólastjórinn á mig úr dyrunum.
Hann skipaði mér að hitta hann á skrifstofu hans, NÚNA!

II
Skólastjórinn lokaði skrifstofudyrunum
ég upplifði mig innikróaða.
Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið.
Hann gerði mér grein fyrir því að þetta barn
væri fósturbarn.
Þeim ætti ekki að gefa of mikið pláss.
Það væri ekki fallegt að gefa munaðarlausum von, sjálfsvirðingu og trú á eigin getu.
Það gerði þeim ekkert gott.
Þau þyrftu að læra hvaðan þau kæmu.
Svo skyldi ég hætta að tala faglega á kaffistofunni
um kennsluaðferðir, orðaforða, bekkjafundi og gagnrýna hugsun.
Þar mætti ég eingöngu ræða um fótbolta
þannig liði öllum vel.
Fagmennska ætti eingöngu við
á viðeigandi fundum
í viðeigandi hópi
ekki innan um starfsfólk
það væri ófagmannlegt
ylli ákveðnum óþægileika.
Og svo skyldi ég muna að við værum úti á landi
þar sem gagnrýnin hugsun ætti ekki heima.
Gagnrýna hugsun ætti ekki að kenna úti á landi og fyrir því lægju góðar ástæður.

III
Ég kvartaði við fræðslustjóra
og var tekin á teppið í ráðhúsinu.
Ég kvartaði við kennarasambandið
og fékk þau skilaboð að þau gætu ekki
tekið á málum sem vörðuðu skólastjórnendur
því þau störfuðu öll sama húsi
og þar þyrfti að ríkja friður.
Að rugga bátum og stoppa ofbeldi skólastjórnenda
gagnvart nemendum og starfsfólki skóla þýddi stríð í húsinu
það gengi ekki.
Þessi ákveðni skólastjóri
væri vinsæll
hjá kennarafélaginu og hjá skólastjórafélaginu.
Ég var ein.
Svo ég hvarf
ásamt allmörgum kennurum sem viðhöfðu fagmennsku
og kenndu nemendum sínum gagnrýna hugsun.
Við tókum gagnrýna hugsun með okkur úr skólanum
- vonandi sat samt eitthvað af henni eftir.

IV
Ég vona að öllum börnum farnist vel
- að bakland þeirra styrkist í skólum landsins
- að skólastjórnun hætti að geta bitnað á nemendum.
- að fagmennska og gagnrýnin hugsun fái mikið pláss
- að börn fái alltaf áheyrn og rödd…
… og að einhvern daginn megi kennarar tala
um fleira en fótbolta
í öllum skólum landsins.

V
Ég stend alltaf með þér
kæra barn
og vona að þú sért enn með það á hreinu
að þú ert góð manneskja
og þú hefur rétt til að spyrja spurninga
um hvaðeina sem þú vilt fá svör við
og jú, þær mega alveg líka snúast um fótbolta.  
Elín Kona Eddudóttir
1965 - ...


Ljóð eftir Elínu Konu Eddudóttur

Grýludraumar
Framadraumar Leppalúða
Kosningarnar 2013
Glugginn minn og glugginn þinn
Ölfusá
Gengið um götur Guðmundar góða
Kona í landi sona
2. desember 2022
Kvennakváraverkfall 24. október 2023
Valdeflingardraumur
Skólastjórn sem bitnar á…