Móðursorg
Kolsvört læða, lipur veiðikló,
labbar með mér út um grund og mó:
elsku litli anginn hennar dó
- oft er torvelt börnin sín að geyma.
Hún er friðlaus, finnur hvergi ró,
flýr nú skelkuð tóma bólið heima.

Ó, hve loppan hans var fim og fín,
fallega hann sperrti eyrun sín,
allt hans líf var leikur, saklaust grín,
létt og mjúkt og fullt af skrýtnum vonum.
Vertu róleg, veslings kisa mín
- við skulum bæði reyna að gleyma honum.

Kisa-kis mig horfir hissa á,
- hennar sára, eymdarlega mjá
stígur upp í himinhvolfin blá:
hvað má vorum dýpsta trega eyða?
- Kannski er barn þitt góðum guði hjá
gullfugl eða silfurmús að veiða.  
Jóhannes úr Kötlum
1899 - 1972


Ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum

Ömmuljóð
Þula frá Týli
Stelkurinn
Móðursorg
Kvíaból
Í tröllahöndum
Erlan
Enn um gras
Brot
Betlari
Aftankyrrð
Jólasveinarnir
Grýlukvæði
Jólin koma
Land míns föður