Til Guðrúnar (Mansaungur)
Segja ekki ennþá augun þín,
að við þráum bæði,
litla vísnavinan mín,
vor og bernskukvæði?

Mér finst aldrei myrkvist lund
meðan æskuþráin
getur svona stund og stund
stokkið út í bláinn.

Bæði vilja vita af því,
er vor og ástir kalla.
Við erum sjálfsögð saman í
sumarleikina alla.

Þó er alltaf yndið mest
okkar tveggja gaman.
Vorið það, sem verður best,
við eigum bæði saman.

Þegar svölu andar að
eða jeg leita að vinum,
fer jeg beint að finna það
fram hjá öllum hinum.

Eins og þú á sumu sjerð,
sem þig tæpast varði,
heilsa jeg þar í hverri ferð
heim að biskups garði.

Sætin urðu á sama stað,
sól þegar fór að ægi,
þótt að hjeldum heiman að
hvort í sínu lagi.

Bæði munu um ást og óð
eiga fegurst minni,
þar sem mjer var lítið ljóð
launað fyrsta sinni.

Þá er bjartast bros á kinn,
best að muna róminn,
þar sem litla lækinn þinn
lángaði að kyssa blómin.

Hjer er ljúft að gánga um grund,
gruna, þrá og dreyma
alt, sem fögur aftanstund
á að sjá og geyma.

Hún hefur lagt í vorsins völd
viljana okkar báða,
hvert það börnin ber í kvöld
blær og vængir ráða.

Brosir undir sól að sjá
sveitakvöldsins næði.
Það er að hvísla endann á
okkar sumarkvæði.

---

Brekkan þín með blómin öll,
bæinn litla fríða,
fuglasöng og sólskinsvöll -
svona á alt að bíða.

Sætið mitt í salnum þeim
sumrin glita mega,
meðan leik við líf og heim
lángar mig að eiga.

Hýrar sveitir horfa við
hlíðum sumarbúnum
vestr í aftans ysta hlið
austan af morgunbrúnum.

Það er fáum fylgt í höll
fegri en þá á kvöldin,
þegar hin háu fornu fjöll
fest eru í bláu tjöldin.

Þennan glæsta heiðahríng
hjer er kærst að skoða,
eldi læstan alt um kríng
út í fjærsta roða.

Svona bjart um sælu þá,
sem við fundum bæði,
þegar inst í augað sá
undir bros og kvæði.

Vorið þitt á þennan stað,
þegar önnur deyja.
Hjerna skal jeg hitta það,
hvað sem stormar segja.

---

Hingað stundum heim til þín
hafa legið sporin,
þegar ljettu ljóðin mín
leika sjer á vorin.  
Þorsteinn Erlingsson
1858 - 1914
Þorsteinn lést áður en hann náði að klára þennan vísnabálk.


Ljóð eftir Þorstein Erlingsson

Athvarfið
Rask
Ef æskan vill rétta þér örvandi hönd
Til Guðrúnar (Mansaungur)
Huldufólkið
Í Hlíðarendakoti
Snati og Óli
Hreiðrið mitt
Örbirgð og auður
Sólskríkjan
Hulda