Greftrun
Helsára barst þú mig upp hólinn, að dyrum eyjunnar, grafhýsi mínu. Óhuggandi himininn tók undir angistaróp hjarta míns, sem fékk ekki flúið banaspjót örlaganna. Þú lagðir mig blíðlega á beðið og bjóst til greftrunar. Laugaðir andlit mitt söltum tárum, líkama minn beiskri olíu, smurðir varir mínar sætu hunangi, vafðir mig hlýju skinni. Þar sem hjarta mitt lifnaði, fékk það að slá í hinsta sinn og svífa á lausnarorðum inn í algleymið. Þar mun kveðja mín og loforð bergmála um eilífð.